Skip to content

Útlán á rafbókum – hugleiðing

by on January 28, 2013

Líkt og flest önnur bókasöfn á landinu erum við nú að velta fyrir okkur rafbókum og hvernig mögulegt er að lána þær út. Útlánum á rafbókum fylgja ýmsir kosti fyrir bókasöfn sem geta með því aukið við þjónustu til lánþega. Tregða og samstarfsörðugleikar við útgefendur hafa þó hægt verulega á framþróun þessarar þjónustu.

Á bókasafni Norræna hússins hafa rafbækur verið aðgengilegar lánþegum í gegnum sænska bóka-dreifingarfyrirtækið Elib. Þetta fyrirtæki gerir bókasöfnum á norðurlöndum fært að lána út sænskar rafbækur. Rafbækurnar sem viðkomandi fyrirtæki bíður upp á koma frá kringum 70 útgefendum. Þær eru hýstar á vefsvæði Elib en þau bókasöfn sem hyggjast nýta sér þjónustuna fá undirsíðu þar til afnota. Elib er því milliliður á milli ákveðinna útgefenda og bókasafna en kannski væri nákvæmar að tala um að bókasöfnin séu milliliður á milli Elib og lesenda. Bókasöfnin sjá ekki um umhirðu, val eða vistun á rafrænum bókakosti heldur gerir Elib það. Ef bókasafn hefur einhverjar aðrar rafbækur í eigu sinni heldur en þær sem fengnar eru gegnum þjónustu fyrirtækisins getur það fært þær inn á vef Elib svo mögulegt sé að lána þær einnig út í gegnum útlánakerfi fyrirtækisins. Fyrir þessa þjónustu greiða bókasöfnin einhverja árlega upphæð. Um Elib.

Benda má á annað álíka fyrirtæki sem starfrækt hefur verið frá 1986, OverDrive, en það fyrirtæki sérhæfir sig í dreifingu rafbóka til bókasafna, skóla og annarra aðila. Dreifingarleið þeirra er svipuð og hjá Elib, OverDrive hýsir bækurnar eða innviklar kerfi sitt inn á heimasíður bókasafna og útlánið á bókunum fer fram á vefsvæði fyrirtækisins með milligöngu bókasafnsins.  Um OverDrive.

Auk þessara tveggja dreifingarfyrirtækja má einnig nefna að Landsaðgangur Hvar.is tók upp tilraunaaðgang að rafbókum fyrir nokkru síðan. Um leið og þessi þjónusta er kærkomin og hlýtur að teljast eftirsóknarvert skref til að bæta við og auka þjónustu bókasafna fyrir lánþega vakna einnig spurningar um þetta fyrirkomulag.

Bókasöfnin verða í raun aðeins milliliðir milli fyrirtækis sem hýsir bækurnar og sér um útlán á þeim, í þessum tilvikum Elib og OverDrive. Er það eftirsóknarverð staða fyrir bókasöfn? Mætti ekki í raun halda því fram að með því að taka upp þetta útlánaform sé bókasafnið að færa mikilvægan þátt í starfsemi þess út til fyrirtækis sem rekið er með gróðarsjónamiði og getur líkt og önnur fyrirtæki farið á hausinn eða lagt upp laupana?  Bókasafnið verður þannig ekki að varðveislustað fyrir rafbækurnar heldur aðeins  áskrifandi að þeim og getur sem slíkt í raun ekki tryggt aðgengi að bókunum til framtíðar. Hvað gerist til dæmis ef bókasafnið hefur hug á að hætta viðskiptum við bókadreifingarfyrirtækið eða skipta um þjónustuaðila? Helst aðgangurinn að bókunum eða þarf safnið að tryggja að nýr þjónustuaðili bjóði upp á sömu bækur? Er það viturlegt að múlbinda bókasöfnin við einn ákveðinn rafbókadreifingaraðila?

Þar sem dreifingarfyrirtæki á borð við OverDrive og Elib gera samninga við ákveðna útgefendur takmarkar það að nokkru leiti það úrval sem stendur bókasöfnum til boða þegar kemur að því að velja og þróa áfram bókakost safnsins. Elib býður upp á allar bækur sinna útgefenda til útláns og mögulegt er fyrir bókasafnið að bæta við einhverjum öðrum inn á útlánasvæði sitt. OverDrive gefur söfnum kost á að velja úr safnkosti og hafa því einhverja hönd í þróun safnkostsins.

Ég velti fyrir mér hvort ekki væri viturlegra að bókasöfn haldi utan um útlán á rafbókum sjálf, þau eigi sjálf eintökin sem lánuð eru út og útlánin fari fram á svipaðan hátt og ef um venjulega bók væri að ræða, að minnsta kosti hvað þær rafbækur áhrærir sem skipta máli fyrir viðkomandi safn. Þjónusta rafbókadreifingarfyrirtækja gæti komið sem viðbót við rafbókaeign safnanna en ekki verið undirstaðan í þeim.

Í þeim breytingum sem við stöndum frammi fyrir á bókasöfnum skiptir máli að öllum spurningum sé svarað. Að ekki verði hlaupið að neinu heldur sé skýr stefna mótuð um útlán á rafbókum. Í stétt bókasafns- og upplýsingafræðinga eru margir hæfir einstaklingar sem hafa sérþekkingu á málefnum rafbóka og hafa hugmyndir um hvernig koma mætti sem best á útlánafyrirkomulagi um rafbækur. Spyrja má hvort ekki væri viturlegt að setja saman nefnd um útlán rafbóka sem gæti útbúið vinnulíkan um hvernig best væri að haga rafbókavæðingu bókasafnanna. Þar sem mörg bókasöfn eiga eftir að taka þetta skref á næstu árum eða mánuðum væri gott að gera það í sameiningu en ekki hver með sínum hætti.

Helgi Sigurbjörnsson.

Bókasafns- og upplýsingafræðingur hjá Menntaskólanum í Kópavogi.

Advertisements

From → Pistlar

Leave a Comment

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: