Skip to content

Bókasafnsblogg

Nóg er til af góðum bloggum um bókasöfn og bókasafnsfræði. Hér eru nokkur dæmi um skemmtileg blogg fyrir þá sem ekki þekkja.

Annoyed Librarian er gagnrýnin á bókasafnsfræði og bókasöfn í Bandaríkjunum.

Academic Librarian er bókasafnsfræðingur sem starfar við heimspeki- og trúarbragðasafn Princeton-háskóla.

Heimspekingurinn og bókasafnsfræðingurinn Lane Wilkinson bloggar á Sense and Reference.

John Dupuis starfar á bókasafni við  York-háskóla í Kanada og heldur úti blogginu Confessions of a Science Librarian.

Margir ættu að þekkja Phil Bradley, sem hélt erindi á Landsfundi Upplýsingar 2012.

Brian Herzog vinnur við upplýsingaþjónustu á almenningsbókasafni og bloggar sem Swiss Army Librarian.

Ellyssa Kroski fjallar um bókasöfn 2.0 og upplýsingabyltinguna á iLibrarian.

Jessica Olin skrifar ráð til nýrra bókavarða á Letters to a Young Librarian.

Aaron Tay bloggar á Musings about librarianship en hann var valinn „Mover & Shaker“ af Library Journal árið 2011.

Sarah Houghton er bókasafns- og bókmenntafræðingur og bloggar sem Librarian in Black.

Advertisements

Jólagleði Upplýsingar 2012

Þann 30. nóvember síðastliðinn var jólagleði Upplýsingar haldin á bókasafni Listaháskóla Íslands að Þverholti 11.  Þær Riina, Sara og Sigrún húsráðendur safnsins tóku vel á móti félagsmönnum. Um fjölda gesta ekki er vitað en húsfyllir var þegar gleðin náði hámarki.  Þrengst var á þingi kringum girnilegu veitingarnar en þar komust færri að en vildu.  Formaður Upplýsingar, Margrét Sigurgeirsdóttir bað gesti um að lækka róminn svo hún gæti ávarpað samkomugesti og boðið þá velkomna.  Að því loknu byrjuðu tveir nemendur Listaháskólans að spila undurfagra tónlist á meðan gestir tóku til við að blanda geði, spjalla og hlæja yfir mat og drykk. Útsendari Fregna ráfaði fram og aftur og áður en hann vissi af var farið að draga úr happdrættismiðum.  Nokkir heppnir fóru heim með nýjar bækur.

Lokaskemmtiatriðið var stórskemmtilegt leik- og söngatriði í flutningi nokkurra nemanda Listaháskólans.

Jólagleði Upplýsingar

Lifandi tónlist á jólagleði Upplýsingar

image

Málþing um Jón Árnason

Laugardaginn 24. nóvember kl. 11:00-16:00 verður málþing haldið um Jón Árnason, söfnun hans og þjóðsögurnar á vegum námsbrautar í þjóðfræði. Tilefnið er 150 ára afmæli fyrra bindis Íslenzkra þjóðsagna og æfintýra en bækurnar komu út á árunum 1862-1864 í Leipzig.

Málþingið verður í fyrirlestrarsal Landsbókasafns Íslands – Háskólasafns. Styrktaraðili er Háskólasjóður og málþingið er haldið í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólasafn.

Kl. 12:30 sama dag verður sýning í tengslum við málþingið á vegum Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns opnuð.

Dagskrá og nánari upplýsingar má finna hér.

3. fundur Höfundaréttarráðs

by

3. fundur Höfundaréttarráðs var haldinn 15. mars. 2012.

Dagskráin var á þessa leið:

  • 14.00 Ávarp ráðherra.
  • 14.10 Rán Tryggvadóttir, formaður höfundaréttarnefndar, kynnir frumvarp til breytinga á höfundalögum.
  • 14.25 Ágústa Kristófersdóttir, framkvæmdastjóri safnaráðs, fjallar um aðgengi að söfnum landsins í stafrænu umhverfi.
  • 14.40 Harpa Fönn Sigurjónsdóttir, lögfræðingur Myndhöfundafélags Íslands – Myndstefs, fjallar um notkun safna á vernduðum myndverkum í hinu stafræna umhverfi.
  • 15.00 Kaffihlé.
  • 15.20 Elfa Ýr Gylfadóttir, fjölmiðla- og fjarskiptafræðingur, fjallar um skörun milli mannréttinda og höfundaréttar.
  • 15.40 Pallborðsumræður og fyrirspurnir um mannréttindi og höfundarétt. Þátttakendur eru Elfa Ýr Gylfadóttir, Rán Tryggvadóttir, Tómas Þorvaldsson, lögmaður og Tryggvi Björgvinsson, tölvuverkfræðingur.
  • 16.20 Samantekt fundarstjóra.
  • 16.30 Fundarslit.

Menntamálaráðherra lagði áherslu á mikilvægi þess að að almenningur gæti nýtt sér nýjustu tækni en jafnframt að höfundar nytu réttar síns. Öll þekking og menning ætti að vera aðgengileg öllum. Íslenskur menningararfur yrði að komast á framfæri því annars væri hætt við að íslensk tunga og menning drukknaði innan um allt það efni sem er í boði á Netinu. Gera þyrfti fólki kleift að velja löglega kosti í stað ólöglegs niðurhals. Rán Tryggvadóttir greindi frá Nýju frumvarpi um breytingar á höfundalögunum sem verður lagt fra á vorþingi. Þar verða mikilvægar breytingar á 12. gr. sem munu gera bókasöfnum kleift að gera heildarsamninga við rétthafa um skönnun og rafræna birtingu. Ágústa Kristófersdóttir vakti athygli á því að mörg íslensk listasöfn birtu ekki myndir úr safnkosti sínum á netinu sökum kostnaðar og að þeirra mati ósanngjarnra krafa frá Myndstefi. Hún taldi að birting sem ekki hefði neina fjárhagslega þýðingu ætti að vera endurgjaldslaus. Harpa Fönn fulltrúi Myndstefs lagði mikla áherslu á að samningar hefðu dregist úr hófi og yrðu að takast. Elfa Ýr Gylfadóttir spurði hvar íslensk menning væri í stafræna heiminum. Hún ræddi um leiðir sem farnar hefðu verið til að sporna við ólöglegri notkun svosem eins og tillögu um lokun netsíðna í Noregi og Hadopi lögin í Frakklandi. Taldi hún það skerðingu á mannréttindum að henda fólki út af Netinu. Hún sagði að stækka þyrfti markaðssvæði svo lítil samfélög dyttu ekki út, t.d. gætu Norðurlöndin verið eitt markaðssvæði. Margt fleira fróðlegt kom fram á fundinum. Almennt má segja að ótti við að íslenska efnið færi halloka í Netheimum og mikilvægi þess að viðhalda íslenskunni ásamt því að auka löglegt aðgengi einkenndi umræðurnar.

Ólöf Benediktsdóttir, fulltrúi Upplýsingar í Höfundaréttarráði.

Eyðibýli á Íslandi – þrjú bindi

Út eru komin þrjú bindi af ritinu Eyðibýli á Íslandi. Útgáfan er afrakstur rannsókna síðustu tveggja ára.

Markmið verkefnisins Eyðibýli á Íslandi er að rannsaka og skrá umfang og menningarlegt vægi eyðibýla og annarra yfirgefinna íbúðarhúsa í sveitum landsins. Fyrstu skref verkefnisins voru tekin sumarið 2011 þegar rannsókn fór fram á Suður- og Suðausturlandi. Sumarið 2012 náði rannsóknin til tveggja landsvæða; Norðurlands eystra og Vesturlands.

Verkefnið hefur verið tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands, Menningarverðlauna DV og Hvatningarverðlauna iðnaðarráðherra. Upplýsingar um verkefnið eru á www.facebook.com/Eydibyli

Efni hvers bindis er sem hér segir:

Eyðibýli á Íslandi, 1. bindi

Austur-Skaftafellssýsla, Vestur-Skaftafellssýsla og Rangárvallasýsla.Höfundar: Arnþór Tryggvason, Árni Gíslason, Birkir Ingibjartsson, Steinunn Eik Egilsdóttir og Yngvi Karl Sigurjónsson. Ritið er 136 bls. að stærð og fjallar um 103 hús.

Eyðibýli á Íslandi, 2. bindi

Norður-Þingeyjarsýsla, Suður-Þingeyjarsýsla og Eyjafjarðarsýsla.Höfundar: Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir. Ritið er 168 bls. að stærð og fjallar um 115 hús.

Eyðibýli á Íslandi, 3. bindi

Dalasýsla, Snæfells- og Hnappadalssýsla, Mýrasýsla og Borgarfjarðarsýsla.Höfundar eru þeir sömu og að 2. bindi. Ritið er 160 bls. að stærð og fjallar um 121 hús.

Ritið er gefið út í litlu upplagi af áhugamannafélagi sem stendur fyrir rannsóknunum. Hvert eintak kostar 5.500 kr. Hægt er að panta ritið á heimasíðuni www.eydibyli.is,  senda póst á netfangið gislisv@r3.is eða hringja í síma 588 5800.

Nánari upplýsingar veitir undirritaður:

Eyðibýli – áhugamannafélag

Gísli Sverrir Árnason formaður

Sími: 588 5800 og 892 5599. Netfang: gislisv@r3.is

Jólagleði Upplýsingar 2011

by

Jólagleði Upplýsingar, föstudaginn 2. desember, 2011 Þetta árið var jólagleði Upplýsingar haldin í Bókasafni Garðabæjar. Mættir voru um 80 félagsmenn í sínu fínasta pússi. Starfsfólk bókasafnsins tók vel á móti gestum við anddyri safnsins og innar biðu okkar kræsilegar veitingar. Gestir streymdu inn fyrsta hálftímann, nældu sér í góðgæti, spjölluðu og „mingluðu“ dágóða stund. Síðan færðist samkoman upp á aðra hæð í hið nýja rými sem hýsir nú lesstofu og handbókasafn safnsins. Forstöðumaður safnsins, Oddný Björgvinsdóttir bauð alla velkomna og greindi aðeins frá breytingum á húsnæði bókasafnsins. Hrafnhildur Hreinsdóttir, formaður Upplýsingar ávarpaði síðan samkomuna og sló á létta strengi. Að því loknu söng Sigríður Thorlacius nokkur vel valin jólalög við gítarundirleik Guðmundar Óskars Guðmundssonar við góðar undirtektir. Eftir að hafa hlýtt á eitt aukalag hófst einskonar samkvæmisleikur undir stjórn Hrafnhildar sem fólst í því að finna einhverja einstaklinga úr hópnum sem uppfylltu ákveðnar persónulýsingar. Kjörið tækifæri til að kynnast fólki á skemmtilegan og óhefðbundinn hátt. Fjórir eða fimm verðlaunahafar sem kölluðu fyrst „bingó“ fengu veglegar bækur að launum. Undirrituð þakkar kærlega fyrir yndislega jólastund sem hún átti með kollegum sínum í Bókasafni Garðabæjar sem lauk um áttaleytið.

Anna María Sverrisdóttir, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni