Skip to content

Ekki bót (les: bók!) fyrir rassinn á sér? Um mikilvægi læsis.

by on September 30, 2013

Höfundur: Hrafn Andrés Harðarson, upplýsingafræðingur

Í frétt í Fréttablaðinu  7. desember  2011 segir frá því að eitt af hverjum þremur börnum í Bretlandi eigi ekki bækur, engar bækur! Um fjórar milljónir barna í því landi á aldrinum 11 til 16 ára eiga ekki  bók.

Þetta eru niðurstöður nýrrar umfangsmikillar könnunar á vegum National Literacy Trust.  Árið 2005 var eitt af hverjum 10 börnum án bóka!

Niðurstöður könnunarinnar sýna jafnframt að lestur á netinu hefur ekki aukist. Börnin horfa í staðinn á kvikmyndir og myndir.

Könnunin tók til  18 þúsund barna. Af þeim kváðust 19 prósent aldrei hafa fengið bók að gjöf og 12 prósent höfðu aldrei komið í bókabúð. Stelpur reyndust eiga fleiri bækur en strákar. (ibs)

Þessi frétt birtist svo í fjölmiðlum föstudaginn 23. ágúst 2013:

Niðurstaða lesskimunar meðal nemenda í öðrum bekk grunnskóla Reykjavíkur síðasta vor var sú lakasta frá árinu 2005.

Niðurstöðurnar sýna að einungis 63 prósent sjö ára barna gátu lesið sér til gagns. Árið áður var hlutfallið 69 prósent og hafði þróunin heldur verið upp á. Lökust var niðurstaðan 2005 að afloknu kennaraverkfalli, þegar 60 prósent gátu lesið sér til gagns.“

Þetta eru ef til vill ekki fréttir fyrir okkur bókasafnsfólk – við höfum fylgst með þessari óheillaþróun nokkur undanfarin ár. Nú hefur byrjað umræða hér á landi um minnkandi læsi meðal ungs fólks og slakan lesskilning barna. Skyldi nokkurn undra?

Í umræðum á fjölmiðlum síðustu misserin hefur verið fjallað um ábyrgð foreldra og skólafólks en ekki er minnst á skólasöfnin né heldur almenningsbókasöfnin. Þau leika vissulega lykilhlutverk, eða þau gætu gert það væri þeim gert hærra undir höfði. Um tíma voru skólasöfn nánast á útleið úr skólunum, ákvæði um þau var numið á brott úr lögum um skóla og víða er pottur brotinn i starfsmannahaldi þeirra. Sums staðar eru gangaverðir settir í það að „lána út bækur“ á skólasafninu.  Eins og það væri aðalatriðið, að lána út bækur! Starfsfólk í bókasöfnum gerir svo miklu meira en það. Lykilatriði í skólasafni er starfsfólkið, þar er nauðsynlegt  að hafa  bókasafns- og upplýsingafræðinga sem geta sinnt starfi sínu í að örva lestur, hvetja til gagnrýninnar hugsunar og gera börnum og unglingum létt með að lesa sér til yndis, þroska og fræðslu. Yndislestur er ekki síst mikilvægur. Barn sem ekki nær að ánetjast yndislestri er illa á vegi statt í „upplýsingaþjóðfélagi“ nútímans.

Hvernig væri nú að sett yrði á laggirnar Þjóðar-læsis-stofnun hér á landi, sem ynni að framgangi bókarinnar og læsis meðal þegnanna?  Sameina mætti krafta ýmissa samtaka og stofnana sem fyrir eru undir merkjum þessarar mikilvægu stofnunar sem, líkt og áður nefnt National Literacy Trust í Bretlandi myndi rannsaka þessa óheillaþróun, kanna hana og gera tillögur til úrbóta.

En fyrst og síðast er mikilvægt að ráðamenn þessarar „bóka- og /eða bókmenntaþjóðar“ Íslendinga, bæði á landsvísu og til sveita geri sér loksins fulla grein fyrir því að forsenda læsis er greiður aðgangur allra að góðum bókakosti! Hvort sem er í heimilis- skóla- eða almenningsbókasafni. Það verður að efla söfnin til muna, fjölga útibúum í þéttbýli og tryggja dreifbýlinu jafnan aðgang að safnkosti og þjónustu safna, upplýsingaþjónustu eins og hún gerist best. Til þessa þarf sérhannaðar byggingar, menntað starfsfólk og peninga til að kaupa inn efni.

Enn er í fullu gildi máltækið Blindur er bóklaus maður – bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Sjáum til þess að allir þegnar Íslands hafi bækur við höndina! Gefum bækur í jólagjöf og afmælisgjöf og byggjum upp mesta og besta bókasafnakerfi heimsins í landi bókanna og bókmenntanna, í landi Snorra, Laxness og Vilborgar!

Hér er auðvitað átt við allar gerðir bóka, á pappír, plasti og stafrænar bækur (rafbækur).

Í tilefni af Bókasafnadeginum 2013. Allir dagar eru bókasafnsdagar…

From → Pistlar

Leave a Comment

Leave a comment