Skip to content

Nýjar breytingar á höfundalögunum á árinu 2016

Höfundur: Ólöf Benediktsdóttir

Allmargar breytingar voru gerðar á höfundalögunum á síðasta ári:

  • 9/2016 (tóku gildi 5. mars 2016)
  • 10/2016 (tóku gildi 5. mars 2016; EES-samningurinn: XVII. viðauki tilskipun 2012/28/ESB)
  • 11/2016 (tóku gildi 5. mars 2016; EES-samningurinn: XVII. viðauki tilskipun 2011/77/ESB)
  • 109/2016 (tóku gildi 22. okt. 2016)

Sjá Höfundalögin á http://www.althingi.is/lagas/nuna/1972073.html þar sem hægt er að skoða allar breytingarnar í réttu samhengi.

Miklar breytingar hafa orðið á 12. grein laganna sem helst snertir bókasöfnin:

Ákvæði um samningskvaðaleyfi  í 12. og 26. grein, sem gefa kost á að gera heildarsamninga við rétthafasamtök t.d. um skönnun og birtingu eða um millisafnalán.

Ný ákvæði í 12. grein um munaðarlaus verk, sem hefur í för með sér að ef til dæmis bókasöfn ætla að birta þau á vef, þurfa þau að ganga úr skugga um að þau séu munaðarlaus (að enginn eigi höfundaréttinn).  Ákvæðin hafa verið umdeild í nágrannalöndunum og sumir talið þau einkum til þess fallin að flækja málin og valda söfnum óþarfa fyrirhöfn.

Einnig má nefna ákvæði um lengingu verndartíma hljóðrita úr 50 í 70 ár eftir lát höfundar  í 43. grein sem einnig hafa verið umdeild eins og allar lengingar á verndartíma.

Þó að nú séu komin ákvæði í höfundalögin sem margir hafa beðið eftir og gera mögulegt að semja um stórfellda skönnun og birtingu, til dæmis á ritum sem eru ekki lengur á markaði en í höfundarétti, er ekki endilega víst að það verði stokkið á samninga strax.

Slíkir samningar yrðu sennilega mjög kostnaðarsamir fyrir ríkið og auk þess útheimtir verkið aukinn launa- og tækjakostnað.

Það má kannski segja að forsendur hafi breyst dálítið á síðustu árum þar sem áhugi hefur aukist mjög á opnum aðgangi og höfundar fræðigreina keppast nú við að birta greinar sínar á vefjum eigin stofnana eða háskóla og sætta sig ekki við einokun ýmissa erlendra tímaritaútgefenda á verkum sínum. Þeir nota þá oft CC skilmála og semja ef til vill við útgefendur um að mega birta eigin verk á opnum aðgangi.

Dálítið öðru máli gegnir um bækurnar. Útgefendur/rétthafar eru tregir til að leyfa opinn aðgang og vilja frekar sjálfir setja ritin á rafrænt form og selja í eigin veitum eða selja bókasöfnum aðgang með ýmsum takmörkunum. Þetta gengur nokkuð vel varðandi nýjustu bækurnar en hætt er við að ýmis rit verði útundan, svo sem rit frá minni útgáfufyrirtækjum eða þeim sem eru farin á hausinn. Ýmis eldri rit sem enn eru í höfundarétti komast seint eða aldrei á opinn aðgang með þessu móti. Það er álitamál hvort ekki ætti fremur að greiða söfnunum fyrir að veita aðgang að þeim verkum sem eru komin af markaði en að krefjast greiðslu fyrir það.

Í sumum löndum, til dæmis í Noregi og Bandaríkjunum, hafa löngu verið gerðir samningar við rétthafa um skönnun og birtingu í stórum stíl innan landamæra. Mikill fjöldi eldri íslenskra rita sem eru komin úr höfundarétti eru þar opin fyrir alla út fyrir landamæri.

Sennilega eru skiptar skoðanir meðal íslenskra bókasafns- og upplýsingafræðinga um þessi ákvæði.

 

Altmetrics

Altmetrics er tiltölulega ný leið til skoða áhrif rannsókna. En þar er áhrifamáttur rannsókna mældur með því að skoða útbreiðslu og umfjöllun um rannsóknina. Við það eru þættir á borð við umfjöllun á féagsmiðlum og vísanir í rannsóknina settar í tölulegt samhengi. Ég vildi kynna mér efnið og fékk aðgang að Altmetric Explorer. Lítum aðeins á hvað við getum gert með þessu.
 
Hér er smá brot af síðunni sem ég fæ upp þegar ég skrái mig inn.
alt1
Nú langar mig að athuga hvað er nýlega búið að skrifa um ebóluveiruna. Þá leita ég að efnisorðinu ebola. Ég fæ upp margar niðurstöður en veljum eina: Genomic surveillance elucidates Ebola virus origin and transmission during the 2014 outbreak. Eins og við sjáum á skjáskotinu er hún með „Altmetric score of 1925.“
 alt2
Á skjáskotinu sjáum við meðal annars að a.m.k. 61 fréttaveita, 1711 tíst og 95 Facebook síður hafa vísað í þessa grein. Ef við smellum svo á titilinn förum við inn á greinina hjá útgefanda en ef við smellum á score-ið fáum við upp nánari útlistun á hvað felst í því:
 alt3
Þarna er hægt að sjá hverjir tala um þetta á fréttasíðum, bloggum, Facebook, Twitter o.fl. – jafnvel er hægt að skoða hvaðan tístin koma:
alt4
Nú er þetta sniðugt tól en hefur sína galla. David Colcuhoun nefnir tvö dæmi af sjálfum sér þar sem hann skrifar annars vegar einfalda en krítíska grein um nálastungur og hins vegar nokkuð tæknilega grein. Síðari greinin fékk litla athygli á meðan mikið var fjallað um fyrri greinina. Það er því líklegt að stór hluti rannsókna týnist inan um léttvægari greinargerðir. 
 
Þýðir það að við eigum að hætta að hugsa um altmetrics og einbeita okkur að öðru? Ekki endilega. En við þurfum að hafa í huga að gæði efnis veltur ekki á því hversu útbreitt það er á samfélagsmiðlum.

Hugleiðing – starfsárið 2013-2014

by

Upplýsing – fréttamoli – 9 tbl. september 2013 (pdf skjal)

 

Bókasafnsdagurinn er nýafstaðinn. Sem fyrr var mikið auglýst og ýmislegt brallað. Ber að þakka öllum sem lögðu hönd á plóg bæði í formi styrks og vinnuframlags.

Framtíðarhópur Upplýsingar heldur áfram störfum. Ef félagsmenn hafa áhuga á að komast í þann hóp er hægt að senda tölvupóst á upplysing@upplysing.is. Megintilgangur hópsins er að vekja athygli á mikilvægi útskrifaðra bókasafns– og upplýsingfræðinga. Hópurinn vill einfalda heitið í upplýsingafræðingar. Kollegar okkar víða um heim hafa verið að gera það sama í takt við nýjar áherslur í faginu. Bætt ímynd mun vonandi skila sér í betri launakjörum allra sem vinna við söfn og upplýsingamiðstöðvar óháð menntun. Upplýsing mun standa fyrir málþingi 22. nóvember nk. um námið og framtíð stéttar upplýsingafræðinga.

Morgunkornin munu eiga sinn sess fyrsta fimmtudag í mánuði.
Allar hugmyndir að erindum, námskeiðum og öðrum uppákomum eru vel þegnar frá félagsmönnum í tölvupósti (upplysing@upplysing.is)

Stjórn Upplýsingar hittist á stjórnarfundi einu sinni í mánuði. Í félaginu starfa nokkrar nefndir, fræðslu– og skemmtinefnd, fagnefnd, útgáfunefnd og uppstillinga-nefnd. Einnig eru nokkrir hópar: framtíðarhópur, undir-búningshópur fyrir bókasafnsdaginn og höfundaréttar-hópur. Auk þess tilnefnir félagið fólk í Bókasafnaráð og samráðshóp um Hljóðbókasafn Íslands svo eitthvað sé nefnt.
Stjórnarskipti fara fram að vori. Næsta vor munu verða formannskipti þar sem stjórnarsetu núverandi formanns lýkur þá. Nú er kjörið tækifæri fyrir félagsmenn að huga að framboði fyrir næsta aðalfund. Með því að starfa í stjórn Upplýsingar hafa félagsmenn tækifæri til að hafa áhrif. Miklar breytingar eru framundan í faginu og stéttin stendur á tímamótum. Verkefni Upplýsingar eru mörg og fjölbreytt og með því að starfa með félaginu gefst tækifæri til að taka þátt í því stefnumótunarstarfi sem þegar er hafið. Félagsmenn er hvattir til að hafa samband við Upplýsingu ef það hefur áhuga á að starfa með beinum hætti með okkur.
Félagsmenn sem hafa fært heimili sitt eru beðnir að senda upplýsingar um það svo að póstur skili sér á réttan stað.

Ekki bót (les: bók!) fyrir rassinn á sér? Um mikilvægi læsis.

by

Höfundur: Hrafn Andrés Harðarson, upplýsingafræðingur

Í frétt í Fréttablaðinu  7. desember  2011 segir frá því að eitt af hverjum þremur börnum í Bretlandi eigi ekki bækur, engar bækur! Um fjórar milljónir barna í því landi á aldrinum 11 til 16 ára eiga ekki  bók.

Þetta eru niðurstöður nýrrar umfangsmikillar könnunar á vegum National Literacy Trust.  Árið 2005 var eitt af hverjum 10 börnum án bóka!

Niðurstöður könnunarinnar sýna jafnframt að lestur á netinu hefur ekki aukist. Börnin horfa í staðinn á kvikmyndir og myndir.

Könnunin tók til  18 þúsund barna. Af þeim kváðust 19 prósent aldrei hafa fengið bók að gjöf og 12 prósent höfðu aldrei komið í bókabúð. Stelpur reyndust eiga fleiri bækur en strákar. (ibs)

Þessi frétt birtist svo í fjölmiðlum föstudaginn 23. ágúst 2013:

Niðurstaða lesskimunar meðal nemenda í öðrum bekk grunnskóla Reykjavíkur síðasta vor var sú lakasta frá árinu 2005.

Niðurstöðurnar sýna að einungis 63 prósent sjö ára barna gátu lesið sér til gagns. Árið áður var hlutfallið 69 prósent og hafði þróunin heldur verið upp á. Lökust var niðurstaðan 2005 að afloknu kennaraverkfalli, þegar 60 prósent gátu lesið sér til gagns.“

Þetta eru ef til vill ekki fréttir fyrir okkur bókasafnsfólk – við höfum fylgst með þessari óheillaþróun nokkur undanfarin ár. Nú hefur byrjað umræða hér á landi um minnkandi læsi meðal ungs fólks og slakan lesskilning barna. Skyldi nokkurn undra?

Í umræðum á fjölmiðlum síðustu misserin hefur verið fjallað um ábyrgð foreldra og skólafólks en ekki er minnst á skólasöfnin né heldur almenningsbókasöfnin. Þau leika vissulega lykilhlutverk, eða þau gætu gert það væri þeim gert hærra undir höfði. Um tíma voru skólasöfn nánast á útleið úr skólunum, ákvæði um þau var numið á brott úr lögum um skóla og víða er pottur brotinn i starfsmannahaldi þeirra. Sums staðar eru gangaverðir settir í það að „lána út bækur“ á skólasafninu.  Eins og það væri aðalatriðið, að lána út bækur! Starfsfólk í bókasöfnum gerir svo miklu meira en það. Lykilatriði í skólasafni er starfsfólkið, þar er nauðsynlegt  að hafa  bókasafns- og upplýsingafræðinga sem geta sinnt starfi sínu í að örva lestur, hvetja til gagnrýninnar hugsunar og gera börnum og unglingum létt með að lesa sér til yndis, þroska og fræðslu. Yndislestur er ekki síst mikilvægur. Barn sem ekki nær að ánetjast yndislestri er illa á vegi statt í „upplýsingaþjóðfélagi“ nútímans.

Hvernig væri nú að sett yrði á laggirnar Þjóðar-læsis-stofnun hér á landi, sem ynni að framgangi bókarinnar og læsis meðal þegnanna?  Sameina mætti krafta ýmissa samtaka og stofnana sem fyrir eru undir merkjum þessarar mikilvægu stofnunar sem, líkt og áður nefnt National Literacy Trust í Bretlandi myndi rannsaka þessa óheillaþróun, kanna hana og gera tillögur til úrbóta.

En fyrst og síðast er mikilvægt að ráðamenn þessarar „bóka- og /eða bókmenntaþjóðar“ Íslendinga, bæði á landsvísu og til sveita geri sér loksins fulla grein fyrir því að forsenda læsis er greiður aðgangur allra að góðum bókakosti! Hvort sem er í heimilis- skóla- eða almenningsbókasafni. Það verður að efla söfnin til muna, fjölga útibúum í þéttbýli og tryggja dreifbýlinu jafnan aðgang að safnkosti og þjónustu safna, upplýsingaþjónustu eins og hún gerist best. Til þessa þarf sérhannaðar byggingar, menntað starfsfólk og peninga til að kaupa inn efni.

Enn er í fullu gildi máltækið Blindur er bóklaus maður – bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Sjáum til þess að allir þegnar Íslands hafi bækur við höndina! Gefum bækur í jólagjöf og afmælisgjöf og byggjum upp mesta og besta bókasafnakerfi heimsins í landi bókanna og bókmenntanna, í landi Snorra, Laxness og Vilborgar!

Hér er auðvitað átt við allar gerðir bóka, á pappír, plasti og stafrænar bækur (rafbækur).

Í tilefni af Bókasafnadeginum 2013. Allir dagar eru bókasafnsdagar…

Örstutt pæling um upplýsingaþjónustu og Google

Þegar ég las bloggfærslu Aaron Tay um leiðir til að fá fólk til að nota heimasíðu safns út frá Wikipedia fór ég að hugsa um stöðu upplýsingaþjónustunnar í dag og hvernig notendur leita að upplýsingum.

Eftirfarandi ferli er algengt:

Google > Wikipedia > Heimildir (sjá hér)

Eflaust má oft finna gott efni með þessum hætti en hversu örugg er sú heimildavinna? Vel er staðið að efni á Wikipedia en ég leyfi mér að vitna í TALL-bloggið:

Vandamálið við Wikipedia er að það er of auðvelt. Þú getur farið á Wikipediu, fengið svar, þú lærir í raun ekkert, þú færð bara svar.

Hluti af því að læra í háskóla er upplýsingalæsi. Við þurfum að geta nálgast, metið og notað á skilvirkan hátt þær upplýsingar sem við þurfum.

Ég ræddi við nokkra háskólanema fyrir meistaraprófsritgerðina mína í bókasafns- og upplýsingafræði og einn nemandi sagði m.a. eftirfarandi:

Ég held að undantekningalaust það fyrsta sem ég geri er bara, þú veist, ef ég er kannski að fara að gera hérna verkefni um… um hérna, ítalska stjórnmálaflokkinn eða eitthvað skilurðu, þá bara fer ég á Google og skrifa „ítalski stjórnmálaflokkurinn”. Þú veist, byrja bara að sjá hvað kemur þar skilurðu… og er þú veist, mikið að vinna með þessar síður á netinu, Wikipedia og þetta. Ég reyni að afla mér helstu upplýsinga þar.

Þegar stúdentar byrja að leita að fræðiefni getur efnið virst yfirþyrmandi. Heill hafsjór gagnasafna opnast og erfitt er að átta sig á hvar á að byrja. Færri koma að nýta sér upplýsingaþjónustu vegna þess að svo mikið er aðgengilegt á netinu en á sama tíma hefur starfið breyst með aukinni tækni.  En hvað eigum við að gera? Í greininni Information Overload? Maybe Not eftir William Badke (2010) kemur hann með þrjá kosti í kennslu upplýsingalæsis.

  1. Láta nemendur í friði. Það er erfitt að fá nemendur til að fylgja þeim vinnubrögðum sem kennd eru. Hugtakið upplýsingalæsi hefur ekki komist almennilega inn í skólakerfið og leitarvélar verða betri og betri. En þótt tæknin verði þægilegri þýðir það ekki að auðveldara verði að meta gæðaefni. Það er og verður þörf á að kenna hvernig meta á upplýsingar. Því er þetta ekki fýsilegur kostur.
  2. Kenna grunnatriðin en sleppa afganginum. Þetta er pragmatísk nálgun. Við getum kennt fólki að nota núverandi tól á skilvirkari hátt. Google og Google Scholar eru mikið notaðar leitarvélar og það er hægt að kenna fólki að nota það á árangursríkari og skilvirkari hátt. Þá er hægt að kenna nokkur grunnatriði og segja það nóg. En það er ekki hægt að líta á upplýsingalæsi sem skammtímaatriði og það getur tekið mikinn tíma að öðlast vald á því.
  3. Gera að grundvallaratriði. Þetta gæti verið erfitt í framkvæmd. Það er orðið svo auðvelt að finna upplýsingar að það gæti virst tímasóun að hafa of mikið fyrir þessu. En upplýsingalæsið snýst um að vinna með upplýsingar frekar en að taka við þeim.

Badke segir yfirflæði upplýsinga vera raunverulegt fyrirbæri og að nemendur finni það auðveldasta fremur en það besta ef þeir hunsa það. Upplýsingalæsi verður að vera undirstaða menntunar.

Þetta eru stór orð.

Fyrsti liðurinn er ekki góður kostur skv. Badke. Þessu er ég sammála. Það er margt gott hægt að finna í gegnum Google og Wikipedia en það þarf að þekkja til ef við viljum gera það vel.  Þriðji liðurinn er hluti af því að læra fræðileg vinnubrögð og ætti að vera viðvarandi allt námið.

Annar liðurinn er flóknari. Á meðan ég tel þörf á að kenna vel á gagnasöfnin sem notuð eru, þá er ágætt að benda á hvernig er hægt að nýta t.d. Google, Google Scholar og Wikipedia vel. Aaron Tay tók Wikipedia fyrir en mig langar til að kíkja á Google og Google Scholar.

Google mæli ég almennt ekki með ef hugmyndin er að leita að fræðiefni en fyrir almennt efni er það frábær staður til að byrja á. Þekkingargrafið (e. Knowledge Graph) hefur verið í vinnslu og ég hef sett skjáskot hér en þetta birtist til hægri við leitina þegar ég leitaði að [dark knight rises].

darkknight

Eins og sjá má, þá koma grunnupplýsingar um myndina, leikara og tengdar leitir. Jafnvel koma stundum útskýringar með því að setja bendilinn yfir efnið, eins og sjá má í skjáskotinu.

Google Scholar er ágætis leitarvél en aðallega þá ef við vitum að hverju er verið að leita. Greinin Google Scholar duped and deduped benti t.d. á veikleika GS og bendi ég áhugasömum á hana. Ef við prófum að leita að greininni í GS, þá kemur hún sem efsta niðurstaðan.

gs-duped

Hér sjáum við nokkur atriði, þar á meðal stuttar upplýsingar um greinina. Fyrir neðan kemur „Cited by 5“, sem segir að 5 vísanir í greinina hafi fundist, tengdar greinar, útgáfur og svo „Cite“, sem er frekar sniðugt. Ég prófaði að smella á það og fékk eftirfarandi skjáskot upp:

gs-cite

Það er því hægt að nýta þetta með því að afrita viðkomandi heimildakerfi eða færa inn í heimildaskráningarforrit s.s. EndNote. Það virkar einnig að færa yfir í Mendeley  beint úr GS. En það sem er skemmtilegast við þetta er að við sjáum tengil á Landsaðganginn til hægri við greinina í niðurstöðunum. Það er hluti af bókasafnatenglunum sem má skoða betur í stillingunum. Með því að smella þar fáum við að hluta til þetta upp:

gs-landsadg

Et voilà! Heildartexti hjá ProQuest.

Heimildir:

Badke, W. (2010). Information Overload? Maybe Not. Online, 34(5), 52-54.

Erlendur Már Antonsson. (2011). „Gúglið” og þér munuð finna? Rafræn upplýsinganotkun háskólanema. Óbirt meistararitgerð : Háskóli Íslands í Reykjavík. http://hdl.handle.net/1946/8046

Jacsó, P. (2011) Google Scholar duped and deduped – the aura of “robometrics”. Online Information Review, 35(1), 154 – 160. doi: 10.1108/14684521111113632

Útlán á rafbókum – hugleiðing

by

Líkt og flest önnur bókasöfn á landinu erum við nú að velta fyrir okkur rafbókum og hvernig mögulegt er að lána þær út. Útlánum á rafbókum fylgja ýmsir kosti fyrir bókasöfn sem geta með því aukið við þjónustu til lánþega. Tregða og samstarfsörðugleikar við útgefendur hafa þó hægt verulega á framþróun þessarar þjónustu.

Á bókasafni Norræna hússins hafa rafbækur verið aðgengilegar lánþegum í gegnum sænska bóka-dreifingarfyrirtækið Elib. Þetta fyrirtæki gerir bókasöfnum á norðurlöndum fært að lána út sænskar rafbækur. Rafbækurnar sem viðkomandi fyrirtæki bíður upp á koma frá kringum 70 útgefendum. Þær eru hýstar á vefsvæði Elib en þau bókasöfn sem hyggjast nýta sér þjónustuna fá undirsíðu þar til afnota. Elib er því milliliður á milli ákveðinna útgefenda og bókasafna en kannski væri nákvæmar að tala um að bókasöfnin séu milliliður á milli Elib og lesenda. Bókasöfnin sjá ekki um umhirðu, val eða vistun á rafrænum bókakosti heldur gerir Elib það. Ef bókasafn hefur einhverjar aðrar rafbækur í eigu sinni heldur en þær sem fengnar eru gegnum þjónustu fyrirtækisins getur það fært þær inn á vef Elib svo mögulegt sé að lána þær einnig út í gegnum útlánakerfi fyrirtækisins. Fyrir þessa þjónustu greiða bókasöfnin einhverja árlega upphæð. Um Elib.

Benda má á annað álíka fyrirtæki sem starfrækt hefur verið frá 1986, OverDrive, en það fyrirtæki sérhæfir sig í dreifingu rafbóka til bókasafna, skóla og annarra aðila. Dreifingarleið þeirra er svipuð og hjá Elib, OverDrive hýsir bækurnar eða innviklar kerfi sitt inn á heimasíður bókasafna og útlánið á bókunum fer fram á vefsvæði fyrirtækisins með milligöngu bókasafnsins.  Um OverDrive.

Auk þessara tveggja dreifingarfyrirtækja má einnig nefna að Landsaðgangur Hvar.is tók upp tilraunaaðgang að rafbókum fyrir nokkru síðan. Um leið og þessi þjónusta er kærkomin og hlýtur að teljast eftirsóknarvert skref til að bæta við og auka þjónustu bókasafna fyrir lánþega vakna einnig spurningar um þetta fyrirkomulag.

Bókasöfnin verða í raun aðeins milliliðir milli fyrirtækis sem hýsir bækurnar og sér um útlán á þeim, í þessum tilvikum Elib og OverDrive. Er það eftirsóknarverð staða fyrir bókasöfn? Mætti ekki í raun halda því fram að með því að taka upp þetta útlánaform sé bókasafnið að færa mikilvægan þátt í starfsemi þess út til fyrirtækis sem rekið er með gróðarsjónamiði og getur líkt og önnur fyrirtæki farið á hausinn eða lagt upp laupana?  Bókasafnið verður þannig ekki að varðveislustað fyrir rafbækurnar heldur aðeins  áskrifandi að þeim og getur sem slíkt í raun ekki tryggt aðgengi að bókunum til framtíðar. Hvað gerist til dæmis ef bókasafnið hefur hug á að hætta viðskiptum við bókadreifingarfyrirtækið eða skipta um þjónustuaðila? Helst aðgangurinn að bókunum eða þarf safnið að tryggja að nýr þjónustuaðili bjóði upp á sömu bækur? Er það viturlegt að múlbinda bókasöfnin við einn ákveðinn rafbókadreifingaraðila?

Þar sem dreifingarfyrirtæki á borð við OverDrive og Elib gera samninga við ákveðna útgefendur takmarkar það að nokkru leiti það úrval sem stendur bókasöfnum til boða þegar kemur að því að velja og þróa áfram bókakost safnsins. Elib býður upp á allar bækur sinna útgefenda til útláns og mögulegt er fyrir bókasafnið að bæta við einhverjum öðrum inn á útlánasvæði sitt. OverDrive gefur söfnum kost á að velja úr safnkosti og hafa því einhverja hönd í þróun safnkostsins.

Ég velti fyrir mér hvort ekki væri viturlegra að bókasöfn haldi utan um útlán á rafbókum sjálf, þau eigi sjálf eintökin sem lánuð eru út og útlánin fari fram á svipaðan hátt og ef um venjulega bók væri að ræða, að minnsta kosti hvað þær rafbækur áhrærir sem skipta máli fyrir viðkomandi safn. Þjónusta rafbókadreifingarfyrirtækja gæti komið sem viðbót við rafbókaeign safnanna en ekki verið undirstaðan í þeim.

Í þeim breytingum sem við stöndum frammi fyrir á bókasöfnum skiptir máli að öllum spurningum sé svarað. Að ekki verði hlaupið að neinu heldur sé skýr stefna mótuð um útlán á rafbókum. Í stétt bókasafns- og upplýsingafræðinga eru margir hæfir einstaklingar sem hafa sérþekkingu á málefnum rafbóka og hafa hugmyndir um hvernig koma mætti sem best á útlánafyrirkomulagi um rafbækur. Spyrja má hvort ekki væri viturlegt að setja saman nefnd um útlán rafbóka sem gæti útbúið vinnulíkan um hvernig best væri að haga rafbókavæðingu bókasafnanna. Þar sem mörg bókasöfn eiga eftir að taka þetta skref á næstu árum eða mánuðum væri gott að gera það í sameiningu en ekki hver með sínum hætti.

Helgi Sigurbjörnsson.

Bókasafns- og upplýsingafræðingur hjá Menntaskólanum í Kópavogi.

Bókasafnsfræði á Íslandi árið 2012

Háskóli Íslands

Í Háskóla Íslands brautskráðust nokkrir með diplómur og gráður úr bókasafns- og upplýsingafræði á árinu.* Hér fylgir listi yfir þá og tenglar á lokaverkefni þegar við á.

Í febrúar brautskráðust eftirfarandi:

MLIS-próf
Ragnhildur Sigríður Birgisdóttir

BA-próf
Andrea Ævarsdóttir
Björn Ívar Hauksson
Erna Ásta Guðmundsdóttir
Hrönn Hafþórsdóttir

Í júní:

MA-próf 
Sigríður Björk Einarsdóttir
MLIS-próf
Kristjana Knudsen

Diplómapróf 
Jóhanna Gyða Stefánsdóttir

BA-próf
Anna Berglind Finnsdóttir
Arndís Bragadóttir
Ásdís Sigríður Þorsteinsdóttir
Hafliði Eiríkur Guðmundsson
Helga Dröfn Óladóttir
Kristjana Mjöll Jónsd. Hjörvar

Í október:

MLIS-próf

Steinunn Aradóttir

Diplómapróf

Andri Már Hermannsson (brautskráðist með tvö diplómapróf)

BA-próf 

* Hér má finna brautskráningar á vef HÍ.
Þjóðarspegillinn
Á Þjóðarspeglinum 2012 voru a.m.k. tveir bókasafns- og upplýsingafræðingar með erindi.
Óli Gneisti Sóleyjarson fjallaði um rafbækur
Ágústa Pálsdóttir fjallaði um upplýsingahegðun aldraðra og aðstandenda
Bókakaflar
Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir og Þórdís T. Þórarinsdóttir skrifuðu kafla í Libraries Driving Access to Knowledge (ritstj. Jesús Lau) en kaflinn heitir Iceland Goes Digital: Countrywide Access to Electronic Resources
Bókasafnið
36. árgangur Bókasafnsins kom út árið 2012 og birtist eftirfarandi í því blaði:
Gróa Finnsdóttir: Af bókum og brettum. Mótsagnakenndar hugleiðingar. Bls. 4-7.
Kristín Bragadóttir: Hrappseyjarprentsmiðja. Bls. 8-15.
Christina Tovoté: NordINFOLIT – tíu ára afmæli og breytingar. Bls. 16-17.
Ímyndarhópur Upplýsingar og SBU: Ímynd bókasafns- og upplýsingafræðinga. Bls. 18-21.
Einar Ólafsson: Við erum hætt að vera svona hæversk. Viðtal við Önnu Torfadóttur. Bls. 22-25.
Sveinbjörg Sveinsdóttir: leitir.is … og þér munuð finna. Bls. 26-30.
Sigurður Örn Guðbjörnsson: Fimm dagar í bókaheimi. Mannfræðingur og bókavörður í Frankfurt. Bls. 31-33.
Siggerður Ólöf Sigurðardóttir og Anna Björg Sveinsdóttir: Hugleiðingar um skólasöfn grunnskólanna og Félag fagfólks á skólasöfnum. Bls. 34-40.
Ragnhildur Sigríður Birgisdóttir: Starfsánægja á almenningsbókasöfnum. Eigindleg rannsókn á starfsánægju starfsmanna almenningsbókasafna á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Bls. 41-44.
Halla Ingibjörg Svavarsdóttir: Er vilji allt sem þarf? Skólasafnið og samstarf bókasafns og upplýsingafræðinga, fagaðila í tölvum og kennara. Bls. 45-50.
Arnar Óðinn Arnþórsson: Til frænda. Ljóð. Bls. 50.
Sindri Freysson: EX LIBRIS. „Hver sá er stelur þessari bók lokar hliðum Himnaríkis.“ Bls. 51-53.
Einar Ólafsson: Bókasafnið inn að kviku! Nordic Camps: þriggja ára þróunarverkefni. Bls. 54-58.
Ingibjörg Ingadóttir: Að gleyma sér í skræðunum.  Bls. 59.
Drífa Viðarsdóttir: Næring bóka og lesturs. Bls. 60

Bókasafnsblogg

Nóg er til af góðum bloggum um bókasöfn og bókasafnsfræði. Hér eru nokkur dæmi um skemmtileg blogg fyrir þá sem ekki þekkja.

Annoyed Librarian er gagnrýnin á bókasafnsfræði og bókasöfn í Bandaríkjunum.

Academic Librarian er bókasafnsfræðingur sem starfar við heimspeki- og trúarbragðasafn Princeton-háskóla.

Heimspekingurinn og bókasafnsfræðingurinn Lane Wilkinson bloggar á Sense and Reference.

John Dupuis starfar á bókasafni við  York-háskóla í Kanada og heldur úti blogginu Confessions of a Science Librarian.

Margir ættu að þekkja Phil Bradley, sem hélt erindi á Landsfundi Upplýsingar 2012.

Brian Herzog vinnur við upplýsingaþjónustu á almenningsbókasafni og bloggar sem Swiss Army Librarian.

Ellyssa Kroski fjallar um bókasöfn 2.0 og upplýsingabyltinguna á iLibrarian.

Jessica Olin skrifar ráð til nýrra bókavarða á Letters to a Young Librarian.

Aaron Tay bloggar á Musings about librarianship en hann var valinn „Mover & Shaker“ af Library Journal árið 2011.

Sarah Houghton er bókasafns- og bókmenntafræðingur og bloggar sem Librarian in Black.

Jólagleði Upplýsingar 2012

Þann 30. nóvember síðastliðinn var jólagleði Upplýsingar haldin á bókasafni Listaháskóla Íslands að Þverholti 11.  Þær Riina, Sara og Sigrún húsráðendur safnsins tóku vel á móti félagsmönnum. Um fjölda gesta ekki er vitað en húsfyllir var þegar gleðin náði hámarki.  Þrengst var á þingi kringum girnilegu veitingarnar en þar komust færri að en vildu.  Formaður Upplýsingar, Margrét Sigurgeirsdóttir bað gesti um að lækka róminn svo hún gæti ávarpað samkomugesti og boðið þá velkomna.  Að því loknu byrjuðu tveir nemendur Listaháskólans að spila undurfagra tónlist á meðan gestir tóku til við að blanda geði, spjalla og hlæja yfir mat og drykk. Útsendari Fregna ráfaði fram og aftur og áður en hann vissi af var farið að draga úr happdrættismiðum.  Nokkir heppnir fóru heim með nýjar bækur.

Lokaskemmtiatriðið var stórskemmtilegt leik- og söngatriði í flutningi nokkurra nemanda Listaháskólans.

Jólagleði Upplýsingar

Lifandi tónlist á jólagleði Upplýsingar

image