Skip to content

Nýjar breytingar á höfundalögunum á árinu 2016

by on March 14, 2017

Höfundur: Ólöf Benediktsdóttir

Allmargar breytingar voru gerðar á höfundalögunum á síðasta ári:

  • 9/2016 (tóku gildi 5. mars 2016)
  • 10/2016 (tóku gildi 5. mars 2016; EES-samningurinn: XVII. viðauki tilskipun 2012/28/ESB)
  • 11/2016 (tóku gildi 5. mars 2016; EES-samningurinn: XVII. viðauki tilskipun 2011/77/ESB)
  • 109/2016 (tóku gildi 22. okt. 2016)

Sjá Höfundalögin á http://www.althingi.is/lagas/nuna/1972073.html þar sem hægt er að skoða allar breytingarnar í réttu samhengi.

Miklar breytingar hafa orðið á 12. grein laganna sem helst snertir bókasöfnin:

Ákvæði um samningskvaðaleyfi  í 12. og 26. grein, sem gefa kost á að gera heildarsamninga við rétthafasamtök t.d. um skönnun og birtingu eða um millisafnalán.

Ný ákvæði í 12. grein um munaðarlaus verk, sem hefur í för með sér að ef til dæmis bókasöfn ætla að birta þau á vef, þurfa þau að ganga úr skugga um að þau séu munaðarlaus (að enginn eigi höfundaréttinn).  Ákvæðin hafa verið umdeild í nágrannalöndunum og sumir talið þau einkum til þess fallin að flækja málin og valda söfnum óþarfa fyrirhöfn.

Einnig má nefna ákvæði um lengingu verndartíma hljóðrita úr 50 í 70 ár eftir lát höfundar  í 43. grein sem einnig hafa verið umdeild eins og allar lengingar á verndartíma.

Þó að nú séu komin ákvæði í höfundalögin sem margir hafa beðið eftir og gera mögulegt að semja um stórfellda skönnun og birtingu, til dæmis á ritum sem eru ekki lengur á markaði en í höfundarétti, er ekki endilega víst að það verði stokkið á samninga strax.

Slíkir samningar yrðu sennilega mjög kostnaðarsamir fyrir ríkið og auk þess útheimtir verkið aukinn launa- og tækjakostnað.

Það má kannski segja að forsendur hafi breyst dálítið á síðustu árum þar sem áhugi hefur aukist mjög á opnum aðgangi og höfundar fræðigreina keppast nú við að birta greinar sínar á vefjum eigin stofnana eða háskóla og sætta sig ekki við einokun ýmissa erlendra tímaritaútgefenda á verkum sínum. Þeir nota þá oft CC skilmála og semja ef til vill við útgefendur um að mega birta eigin verk á opnum aðgangi.

Dálítið öðru máli gegnir um bækurnar. Útgefendur/rétthafar eru tregir til að leyfa opinn aðgang og vilja frekar sjálfir setja ritin á rafrænt form og selja í eigin veitum eða selja bókasöfnum aðgang með ýmsum takmörkunum. Þetta gengur nokkuð vel varðandi nýjustu bækurnar en hætt er við að ýmis rit verði útundan, svo sem rit frá minni útgáfufyrirtækjum eða þeim sem eru farin á hausinn. Ýmis eldri rit sem enn eru í höfundarétti komast seint eða aldrei á opinn aðgang með þessu móti. Það er álitamál hvort ekki ætti fremur að greiða söfnunum fyrir að veita aðgang að þeim verkum sem eru komin af markaði en að krefjast greiðslu fyrir það.

Í sumum löndum, til dæmis í Noregi og Bandaríkjunum, hafa löngu verið gerðir samningar við rétthafa um skönnun og birtingu í stórum stíl innan landamæra. Mikill fjöldi eldri íslenskra rita sem eru komin úr höfundarétti eru þar opin fyrir alla út fyrir landamæri.

Sennilega eru skiptar skoðanir meðal íslenskra bókasafns- og upplýsingafræðinga um þessi ákvæði.

 

From → Pistlar

Leave a Comment

Leave a comment